Semdu þinn eigin texta

Hvernig texta ætlar þú að semja?

MENNTAMÁLASTOFNUN 2020

SKÁLDAÐIR TEXTAR

Af hverju skrifum við skáldaðan texta?

Tilgangur skáldaðra texta er að skemmta lesandanum eða vekja önnur hughrif hjá honum. Þessir textar eru viðurkenndir fyrir form, stíl og listrænt eða fagurfræðilegt gildi.

Skáldaðir textar eða skáldskapur vísar til bókmennta sem eru búnar til úr hugmyndafluginu.

Í enskumælandi löndum er texta oft skipt upp í tvo meginflokka:

skáldaðan texta (fiction) og raunsannan texta (nonfiction).

Undirflokkar skáldaðra texta

Epík, lýrik og dramatík eru þrjár höfuðgreinar bókmennta og eru þetta undirflokkar skáldaðra texta. Hugtökin eru öll komin úr grísku. Í dag kjósum við að tala um skáldsögur, ljóð og leikrit.

Skáldsögur

Epík er dregið af gríska orðinu epos en frummerking þess er „það sem sagt er“ enda er epík frásögn sögumanns af atburðum sem hafa gerst eða eiga að hafa gerst. Á seinni tímum hefur skáldsöguhugtakið komið í staðinn en stundum er frásagnarhugtakið notað.

Einkenni:

• Inniheldur söguþráð sem felur í sér einn eða fleiri atburði.

• Ein eða fleiri sögupersónur (aðal- og auka-) sem geta verið menn, dýr eða annað.

• Umhverfi sögunnar er lýst á einn eða annan hátt.

• Getur falið í sér boðskap.


Dæmi:

• spennusögur

• furðusögur

• ævintýri

• vísindaskáldsögur

• sögulegar skáldsögur

• þjóðsögur

• teiknimyndasögur

Ljóð

Lýrik er dregið af gríska orðinu lyra sem var strengjahljóðfæri. Í upphafi átti orðið lýrik aðeins við söng með lýruundirleik en nú er það samheiti yfir kveðskap eða ljóð sem oftast fela í sér túlkun á tilfinningum og hugblæ.

Einkenni:

Uppbygging ljóða er mjög mismunandi eftir gerð þeirra og því ekki hægt að alhæfa um einkenni. Hér að neðan eru þó talin upp nokkur atriði sem eru algeng í hefðbundinni ljóðagerð.

• stuttur texti

• hrynjandi

• myndmál

• stuðlar og höfuðstafir

• rím

Dæmi:

• limrur

• rímur

• vísur

• nútímaljóð

• söngtextar

Handrit

Dramatík er myndað eftir gríska orðinu drama. Í upphaflegri merkingu orðsins eiga atburðirnir sér yfirleitt stað í nútíð og dramatík tengdist leiksviði hjá Forngrikkjum. Á seinni tímum hefur leikrit eða leikritun komið í stað dramatíkur en þar sem ekki er eingöngu verið að horfa til leikrita á sviði þá er notast við hugtakið handrit.

Einkenni:

• Inniheldur samræður persóna eða einræðu ef um einleik er að ræða (það sem persónur segja hver við aðra).

• Leiðbeiningar varðandi hvernig leikið/talað er.

• Leiðbeiningar um annað sem gerist í verkinu.

• Getur innihaldið leiðbeiningar varðandi leikmuni.

Dæmi:

• Leikrit fyrir flutning á sviði

• Kvikmyndahandrit

• Útvarpsleikrit

• Handrit fyrir þátt eða leikna mynd í sjónvarpi